Minning um góðan félaga

Eyjólfur Gestsson

Fæddur 29. ágúst 1946

Dáinn 6. janúar 2016

Útför frá Hveragerðiskirkju 19. janúar 2016.

Þá er hann dáinn hann Eyfi, Eyjólfur Gestsson, en hann var einn af stofnfélögum Golfklúbbs Hveragerðis árið 1993. Klúbbfélagar lögðu mikið á sig, einkum fyrstu árin, við að byggja upp klúbbinn og golfvöllinn í Gufudal. Völlurinn var byggður upp frá grunni og gömlum útihúsum breytt í golfskála og vélageymslu fyrir klúbbinn. Þau voru mörg handtökin sem félagar í klúbbnum unnu í sjálfboðavinnu og verða seint fullþökkuð, en nú er í Gufudal góður og vinsæll níu holu golfvöllur.

Hola í höggi, Eyjólfur Gestsson-Opna Kjörísmótið 2009(8)Eyfi tók virkan þátt í uppbyggingu klúbbsins og lagði mikið af mörkum við mótun og uppbyggingu vallarins. Hann var lengi í vallarnefnd og formaður þeirrar nefndar um tíma, auk þess sem hann sat í stjórn klúbbsins í nokkur ár. Eyfi var líka virkur kylfingur, lék golf bæði reglulega og mikið. Ég met það svo að fáir ef einhverjir hafi leikið Gufudalsvöll oftar en hann. Eyfi var ekki bara virkur kylfingur, líka vel liðtækur kylfingur, einn af þeim betri í klúbbnum okkar. Hann tók þátt í öllum helstu golfmótunum, var gjarnan í fremstu röð, vann oft til verðlauna og fór loksins holu í höggi á níundu holunni árið 2009. Þau ár sem Eyfi bjó og vann í Reykjavík kom hann yfirleitt daglega yfir sumarmánuðina austur fyrir fjall og uppá golfvöll. Eftir að hann hætti að vinna var hann enn meira uppi á velli. Þeir voru ófáir hringirnir sem hann lék með Jóni Eggertssyni, Sigurði Þráinssyni og Helga Hannessyni, en saman voru þeir gjarnan nefndir „Fornbílaklúbburinn“, enda fullorðnir menn á golfbílum sem áttu (eiga) nánast heima á vellinum.

Það var sárt fyrir okkur félaga í golfklúbbnum og fylgjast með og upplifa hvernig Eyfi okkar missti heilsuna smátt og smátt nú síðustu ár. Hann fór vel með Alzheimer-sjúkdóminn framan af, en þegar hann náði meiri tökum á vini okkar varð okkur sem hann þekktu ljóst hve mikil áhrif sjúkdómurinn hafði. Hann stundaði íþróttina samt af kappi með góðum stuðningi frá félögunum, einkum Steindóri bróður sínum og félögunum í „Fornbílaklúbbnum“. Það var öllum sem til þekktu ljóst að golfíþróttin var stór hluti af lífi Eyfa síðustu áratugina og honum erfitt að þurfa að hætta að stunda golf vegna veikindanna.

Eyfi var hress og skemmtilegur í viðkynningu eins og hann átti kyn til. Ég var ekki hár í loftinu þegar ég man fyrst eftir að hafa séð hann, hressan ungan mann á hlaðinu heima á Húsatóftum. Þegar ég var krakki bjó nefnilega í Vesturbænum aldraður afi hans og alnafni, ásamt öðru frændfólki. Ég kynntist honum hins vegar ekki fyrr en fyrir um 25 árum þegar ég flutti til Hveragerðis, hvar hann hafði alið sinn aldur frá bernsku. Eyfi stundaði garðyrkju þegar við kynntumst, við vorum söngfélagar í kirkjukórnum í nokkur ár og svo saman í golfklúbbnum. Að stunda golf er góð aðferð til að kynnast fólki og hvernig það bregst við bæði þegar vel gengur og illa. Eyfi var prúður kylfingur, virti reglur íþróttarinnar og naut þess að vera úti í náttúrunni í góðum félagsskap.

Við félagarnir í Golfklúbbi Hveragerðis söknum Eyfa. Fyrir hönd klúbbsins sendi ég aðstandendum samúðarkveðjur.

Auðunn Guðjónsson formaður GHG.

Leave a Reply