Vallaryfirlit

Golfvöllurinn í Gufudal við Hveragerði er einn skemmtilegasti og vinsælasti golfvöllur landsins enda skartar hann stórbrotnu landslagi og náttúrfyrirbærum sem gera hann einstakan.
Völlurinn er þekktur fyrir góða og nosturslega umhirðu enda hefur ástand hans verið með því besta hér á landi undanfarin ár.

1. braut

Skemmtileg og falleg, stutt hola, öll upp í móti. Nota venjulega hybrid kylfu í teighögg til að lenda ekki í læknum sem uppi á hæðinni og sker brautina. Reyni að eiga 60-80 metra að flötinni eftir teighögg. Í öðru högginu þarf að gera ráð fyrir hæðarmismuninum sem er nokkur. Par er gott hér, því þetta getur verið hættuleg hola. Þess má geta að líklega er þetta eina holan í heiminum sem státar af hver sem torfæru.

2. braut

Ein fallegasta par 5 hola á landinu með mjög fallegt útsýni af teig. Hér er mjög mikilvægt að vera frekar hægra megin í teighögginu og fá þannig rúll niður hæðina (vinstra megin er kargi sem ekki er gott að lenda í). Annað höggið getur verið vandasamt því oft er staðan í niður- og hliðarhalla. Venjulega legg ég upp fyrir innáhöggið en í miklum meðvindi er vel hægt að ná inn á flöt í tveimur höggum. varasamt er að lenda hægramegin við flötina því þá stendur maður frammi fyrir erfiðu lob höggi. Par er gott hér en ef vindurinn er í bakið er fuglinn betri.

3. braut

Skemmtileg par 4 hola en mjög erfið í mótvindi. Skurðir hægra megin gæti verið í leik eftir teighögg. Mjög mikilvægt að sjá hvar holan er staðsett á flötinni. Ef það er mjög framarlega er gott að eiga fullt högg með pw eða sw. Par er gott hér en alltaf möguleiki á fugli.

4. braut

Falleg hola og ef aðstæður leyfa er hægt að reyna við flötina í teighögginu. Annars nota ég venjulega 4-5 járn og legg upp u.þ.b. 60-80m frá flöt og á þá venjulega góða möguleika á fugli. Hæðamismunur er það sem þarf að varast og vera alls ekki of langur þá hallar flötin öll frá. Mjög skemmtileg flöt með holustaðsetningum. Fugl er alltaf vel þeginn hér.

5. braut

Löng og erfið par 4 braut sem liggur í hundslöpp til hægri, þar sem teighöggið skiptir miklu mál. Hægt að skera brautina í teighöggi en varasamt að missa boltann útaf hægra megin í hraun og mosa (algengt að kylfingar lendi þar). Venjulega miða ég á staurinn og er sáttur við að eiga 80-100m eftir í annað högg. Flötin er löng og mjó. Rétt kylfuval er því mikilvægt. Allt hægramegin við flötina er bannsvæði. Þar er hægt að lenda í vondum málum. Ánægður með par hér.

6. braut

Þægileg par 4 hola en mótvindur getur sett strik í reikninginn. Venjulega miða ég á glompuna en allt í lagi að vera hægra megin því þá opnast flötin betur. Flötin er frekar lítil, löng og mjó. Þegar holan er aftarlega er hún nokkuð strembin því þá koma glompurnar meira í leik. Góður möguleiki á fugli hér við réttar aðstæður.

7. braut

Mjög skemmtileg par 3 hola  þar sem flötin sést ekki frá teig. Rétt kylfuval hér er mikilvægt því ef maður er of stuttur hér er það ávísun á skolla. Mjög stór flöt þar sem 3 pútt eru ekki langt undan. Ánægður með par.

8. braut

Ein sú fallegasta par 5 hola sem ég hef spilað. Gefur mikla möguleika á fugli. Ef teighöggið er gott (yfir Sauðá um 210m flug) þá er stutt annað högg í vændum. Varast ber þó að lenda í ánni sem hlykkjast meðfram flötinni hægra megin og hefur gleypt margan boltann. Tvær glompur verja flötina sem er stór. Ef ég legg upp í teighögginu nota ég ýmist 4 – 5 járn eða 3 tré (fer eftir vindi.  Í annað högg nota ég hybrid eða 3 tré og á þá vonandi eftir eina 40-60m að flöt og góður möguleiki á fugli.

9. braut

Þessi par 3 braut hefur reynst mér erfið sérstaklega varðandi kylfuval. Það er eins og vindurinn sé óútreiknanlegur hérna. Flötin er löng og mjó á tveimur stöllum. Ef holan er á efri stalli getur reynt verulega á hæfileikana í stutta spilinu. Par er alltaf kærkomið hér.