Áramótakveðja

Áramótakveðja frá formanni

Kæru félagar í Golfklúbbi Hveragerðis.

Nú er enn eitt árið að líða og þá er ekki úr vegi að stikla á stóru og líta aðeins yfir farinn veg og þetta ár sem nú er að líða.

Í ár er 30 ára afmælisár klúbbsins, héldum við afmælismót og afmælisfagnað í tilefni afmælisins , tókust báðir viðburðirnir mjög vel og þátttaka félagsmanna var góð.

Golfsumarið byrjaði hins vegar ekki vel, þar sem við vorum mjög óheppin með veður fyrripart sumars. 
Vegna þessa og vegna ástands vallarins þá náðist ekki að opna inn á sumarflatir fyrr en 1. júní, en svo rættist úr veðrinu og var völlurinn vel sóttur mestan part sumars.

Þrátt fyrir erfiða byrjun þá gekk rekstur klúbbsins alveg þokkalega en stjórn brást við og frestaði nokkrum fjárfestingaverkefnum sem voru á áætlun, en það er von stjórnar að það náist að setja þessi verkefni í gang á næsta ári. 
Það er alltaf erfitt að spá fyrir um sumarið og hvernig rekstrarárið muni ganga en stjórn hefur ávallt sett sér það að fara varlega í fjárfestingar og verkefni ef illa árar í upphafi sumars og við höfum rýnt í rekstrartölur mjög reglulega og þar með reynt eftir bestu getu að spá fyrir um afkomuna.

Góður gangur var í starfi nefnda á þessu ári sem skilar sér í öflugu félagsstarfi og er það tilfinning mín að okkur hefur tekist vel til og mun stjórn setja sér það markmið að efla félagsstarfið enn frekar á næsta ári.
Félagsmenn og konur í GHG eru 233 en með aukaaðildarfélögum þá eru 432 félagar í GHG og það má nefna að af þessum fjölda eru 27 félagar undir 18 ára að aldri.  Það er ánægjulegt að fjöldi yngri kylfinga og meðlima hefur farið vaxandi á milli ára.  Það er stefna okkar í stjórn að efla þetta starf enn frekar og auka fjölda yngri kylfinga því þar liggur jú framtíðin.

Ráðinn var nýr vallarstjóri Garðar Guðmundsson í byrjun sumars, hann tók við af Davíð Svanssyni sem lét af störfum og þökkum við Davíð fyrir hans framlag og vinnu fyrir klúbbinn.  Bindur stjórn miklar vonir við Garðar en hann hefur nýlokið námi í golfvallarfræðum og hefur verið viðloðandi klúbbinn og vinnu við völlinn í þó nokkur ár.

Eins og undanfarin ár þá sinntu starfsmenn GHG umhirðu á íþróttavöllum bæjarins ásamt því að sinna slætti á grænum svæðum í bænum.

Golfklúbburinn er með samstarfssamninga við GR, GKG, GM, OG, Nesklúbbinn og GK og gekk þetta samstarf vel á árinu.
Einnig eru  samstarfssamningar (aukaaðildarfélagar) við Golfklúbb Borgarstarfsmanna (GBS) og við Landsvirkjun (STALA) og gekk það samstarf einnig vel.

Áður en ég lýk þessum pistli þá vil ég minnast á góðan félaga sem lést nú í desember.
Þetta er hann Guðmundur Jónsson eða Diddi eins og við flest kölluðum hann, en hann var einn af stofnfélögum Golfklúbbs Hveragerðis og reyndist hann klúbbnum afar vel með eljusemi sinni og dugnaði á upphafsárum klúbbsins og var alltaf boðinn og búinn til að mæta í öll þau verk sem þurfti að takast á við.  Diddi var vel liðinn af félagsmönnum og viljum við þakka honum samveruna og við minnumst hans með hlýhug.
Félagar í GHG senda eiginkonu og fjölskyldu Didda okkar innilegustu samúðarkveðjur og minningin um góðan félaga lifir.

Á aðalfundi klúbbsins sem haldinn var 12. desember og var vel sóttur, var kosin ný stjórn GHG en nýja stjórn skipa:

Vignir Demusson formaður
Sveinn Ingvason
Þórhallur Einisson
Inga Dóra Konráðsdóttir
Anna Pála Víglundsdóttir
Erlingur Arthursson
Ólafur Ragnarsson

Varamenn voru kosin:
Arnar Geir Helgason
Hjörtur B. Árnason
Rannveig Einarsdóttir

Úr stjórn fór Kolbrún Bjarnadóttir en hún gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og vil ég nota tækifærið og þakka henni fyrir hennar framlag og störf í fráfarandi stjórn.

Rekstrarstjóri golfklúbbsins er eftir sem áður Einar Lyng PGA golfkennari.

Að endingu þá vil ég þakka samstarfsfólki mínu í stjórn golfklúbbsins, rekstrarstjóra, vallarstjóra, vallarstarfsfólki, starfsfólki í golfskála og ykkur kæru félagar í GHG kærlega fyrir samstarfið og ánægjuleg samskipti á árinu.

Gleðilegt nýtt ár kæru félagar og takk fyrir gamla árið.

Kveðja,
Vignir Demusson
Formaður GHG

 

 

 

Leave a Reply